Algengar spurningar

Hvenær er best að leita eftir fari eða bjóða far á vefnum bilfar.is?,

Í rauninni eru því fá takmörk sett hvenær nota má vefinn bilfar.is, en líklega er það best þegar um lengri ferðir er að ræða t.d. yfir 25 km eða þegar ferðast er reglulega um skemmri vegalengd t.d. til og frá vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðinu. 

Geta allir aldurshópar boðið far eða óskað eftir fari með Bílfarsvefnum?

Áskilið er að þeir sem nýta sér Bílfarsvefinn séu lögráða, þ.e. orðnir 18 ára. Á það a.m.k. við um ökumenn. Þeir sem ferðast fyrir tilstilli vefsins og eru yngri en 18 ára skulu vera í fylgd með einhverjum sem er eldri en 18 ára, ella gera þeir það á ábyrgð forsjármanns, sem veita skal samþykki sitt fyrir ferð. 

Er einhver hámarksfjöldi farþega sem má fara með í bíl? 

Ekki þykir rétt að tilgreina einhvern hámarksfjölda en fjöldi farþega skal þó liggja fyrir með ótvíræðum hætti áður en ferð hefst. Þó þykir mega miða við að í venjulegum fimm manna fólksbíl séu ekki fleiri en þrír farþegar til að sæmilega rúmt sé um alla.

Hvað geri ég ef sá sem boðið hefur far kemur ekki á staðinn á umdsömdum tíma?  

Bílfarsvefurinn byggir á trausti. Ef menn kjósa að bregðst því trausti er lítið við því að gera annað en að reyna að hafa samband við viðkomandi og vita hvað ferðum hans líði. Þá væri gott að fá tilkynningu í SMS, síma (519 7700) eða tölvupósti á netfangið bilfar@bilfar.is um slík tilvik.

Hvernig get ég verið viss um að sá sem kemur og býður far sé sá sami og skráði sig á Bílfarsvefinn?

Æskilegt er að fyrir liggi upplýsingar um nöfn og búsetusveitarfélag áður en ferðast er saman. Einnig er æskilegt að sá sem býður far greini frá skráningarnúmeri ökutækis ef því er að skipta, en út frá skráningarnúmeri má fletta upp lýsingu á ökutæki, gerð, lit, árgerð o.fl. í ökutækjaskrá vefs Samgöngustofu, www.samgongustofa.is. Einnig verður að telja æskilegt að aðilar sem eru ókunnir hvor öðrum sýni skilríki (greiðslukort, ökuskírteini eða e-ð þess háttar).

Hvað get ég gert finnst mér ég óörugg/ur í bifreiða hjá ökumanni vegna háttalags eða aksturslags eða ef ökutæki er ótraustvekjandi?

Ekkert á að vera að því að koma óþægindatilfinningu sinni á framfæri við ökumann enda sé það gert kurteislega. Það á að vera frumskylda hvers ökumanns að sjá til þess að farþega eða farþegum líði ekki illa í ökutæki hans vegna aksturs hans eða framkomu. Ef ökumaður lætur ekki segjast ætti farþegi að óska eftir að fá að yfirgefa ökutækið sé þess nokkur kostur eða hafna því að þiggja far.  Miðast greiðsla þá við ekna vegalengd.

Hver er réttarstaða mín – er ég tryggður sem farþegi ef ég lendi í slysi eða óhappi? 

Já, samkvæmt umferðarlögum eru allir farþegar í ökutæki sem lendir í óhappi tryggðir. Hvort sem ferðast er saman gegn gjaldi eða ekki.

Veit einhver utanaðkomandi um ferðir sem komið hefur verið á fyrir tilstilli Bílfarsvefsins?  

Ekki er fylgst sérstaklega með ferðum fólks sem ferðast fyrir tilstilli Bílfarsvefsins -  a.m.k. ekki enn sem komið er. Því er æskilegt að sá sem ferðast eða býður far láti einhvern vita um ferðir sínar. Tekið skal fram að allar skráningar á vefnum eru varðveittar og því má fá ákveðnar upplýsingar með því að leita upplýsinga þar, en það getur bæði verið tímafrekt og óvíst að þær upplýsingar nýtist sem þar er að finna. Ef farið verður að nota SMS greiðslumátann eins og hugmyndir eru um felst jafnframt í honum ákveðin skráning, sem auka ætti öryggi.

Er kostnaður sem farþegi greiðir ökumanni fyrir að sitja í bíl hjá honum skattskyldur? 

Yfirleitt er um svo lágar fjárhæðir að ræða að þær teljast vart skattskyldar enda eru greiðslurnar ætlaðar sem þátttaka í kostnaði ökumanns og miðað við gjaldskrá Bílfarsvefsins eru greiðslurnar sjaldnast nema lítill hluti af heildarkostnaði ökumanns við aksturinn.